Svæðið

HIÐ LJÚFA LÍF Á SPÁNI


Spánn á sér langa og litríka sögu og verður ekki annað sagt en að Spánverjar séu upp til hópa glaðvær og skemmtileg menningarþjóð sem tekur vel á móti gestum sínum.

Spánverjar halda mjög í gamlar hefðir og eru miklir sælkerar í mat og drykk. Í spænskri matargerð má því finna mikla fjölbreytni. Áhersla er lögð á ferskleika og gæði hráefnisins og ekki sakar gott vínglas með.

Matarmenningin getur verið mismunandi eftir landsvæðum. Á Costa Blanca svæðinu er hún mjög fjölbreytt og spennandi enda búa þar margir ólíkir menningarhópar. Veitingahúsaflóran er fjölbreytt; spænskir, ítalskir, indverskir, taílenskir, kínverskir, sænskir og argentískir staðir svo fátt eitt sé talið.

Algengastir og vinsælastir eru án efa spænsku tapasréttirnir, úrval smárétta sem ýmist eru bornir fram heitir eða kaldir. Tapas-hefðin endurspeglar hinn afslappaða og skemmtilega lífsstíl Spánverja. Eins og Spánverjar segja sjálfir þá eru tapas-réttir óháðir reglum og tímasetningu, það á aðeins að njóta þeirra.

VERSLUN

Það er gaman að versla á Spáni, úrvalið mikið og verðlagið hagstætt. Hin síðari ár hafa verslanamiðstöðvar risið í nágrenni helstu borga og þar er að finna öll helstu vörumerkin, kaffihús og veitingastaði. Einnig er fjölbreytt úrval smærri verslana, bæði með dýra merkjavöru og ódýrari vörur, allt eftir óskum og þörfum hvers og eins.

Mörgum finnst sérlega gaman að kaupa í matinn á Spáni því þar er hægt að leyfa sér ýmsan munað án þess að svitna þegar kemur að því að borga við kassann.

Fjölmargir útimarkaðir skapa líka ótrúleg tækifæri til skemmtilegra og hagstæðra innkaupa á hinum ótrúlegustu vöruflokkum og þar finnst mörgum gaman að prútta.

Veðursældin er eitt að því sem laðar íbúa norðlægari landa til Spánar. T.d. er lægsti meðalhiti í Torrevieja 16° í janúar og febrúar, en hæsti meðalhiti í Reykjavík eru 13° í ágúst. Sagði einhver golf allt árið?

veðrið

STAÐSETNINGIN

Flesta dreymir um hinn fullkomna stað fyrir sumarfrí eða til langdvala. Í þessum draumi er venjulega góður dvalarstaður, gott veður, fallegar strendur, eitthvað gott að borða og eitthvað skemmtilegt að gera.

Við bjóðum upp á úrval eigna í fallegu umhverfi þar sem loftslagið er eitt það besta í heiminum samkvæmt niðurstöðu Alþjóðaheilbrigðisstonfunarinnar, WHO.

HVAR VILTU VERA?

Viltu vera í Dona Pepa, vinsælum bæ í nágrenni Ciudad Quesada, Guardamar ströndinni og Torrevieja. Úrval góðra verslana og veitingastaða eru í göngufæri og fjöldi góðra golfvalla í næsta nágrenni. Viltu kannski frekar vera á La Zenia, örstut frá ströndinni og nýju og glæsilegu verslana/afþreyingamiðstöðinni La Zenia Boulevard, sem allir eru að tala um. Eða viltu kannski frekar vera í Los Alcazares, aldagömlum spænskum sumarleyfisbæ, með frábærri strönd, og úrvali af góðum golfvöllum í næsta nágrenni? Spánverjar sjálfir njóta þess að vera í fríi í Los Alcazares enda bærinn einstaklega fallegur með miklu úrvali af góðum veitingastöðum og verslunum?

Dona Pepa

Dona Pepa er skemmtilegur bær sem byggst hefur upp á sl. 20-30 árum. Lögð er áhersla á lága byggð, fallega sundlaugargarða og góða veitingastaði og verslanir. Dona Pepa er í göngufæri við Ciudad Quesada, skemmtilegan lítinn bæ þar sem mannlífið iðar allt árið. Þangað er gaman að rölta, fá sér gott að borða eða jafnvel fara á spænskunámskeið eða læra tennis. Aðeins 5-10 mínútna akstur er til Guardamar, sem er fallegur spænskur fiskmannabær með frábærri strönd. Örstutt er einnig til Torrevieja, sem er skemmtileg borg með úrvali af veitingastöðum, verslunum og verslanamiðstöðum með öllum helstu vörumerkjunum. Fjölmargir útimarkaðir eru einnig í næsta nágrenni þar sem gaman er að rölta og skoða.

La Zenia

Vinsælt svæði við Costa Blanca ströndina. Á svæðinu er mikið úrval frábærra veitingastaða og fjölbreyttra verslana og í lok árs 2012 var þar opnuð ein stærsta verslana og afþreyinga miðstöðin á Spáni. Þar er að finna um 150 verslanir á um 160.000 fermetra svæði, yfir 5000 ókeypis bílastæði og fjölmargir veitingastaðir, kaffihús og barir. Í La Zenia Boulevard eru allar vinsælustu verslanirnar, eins og t.d. H&M, Primark, Zara, Laura Ashley, Massimo Dutti ofl. að ógleymdu ótrúlegu úrvali af góðum skóbúðum. La Zenia Boulevard er byggt eins og lítill bær og eru þar nokkrar aðalgötur með stóru torgi í miðjunni. Þar eru skemmtilegir gosbrunnar og ýmislegt til skemmtunar allan daginn og fram á kvöld. Einnig er skemmtilegt leiksvæði fyrir börnin, danskennsla ofl.

Las Ramblas golfvöllurinn

Las Ramblas golfvöllurinn er ca. 50 mín akstur suður af Alicante og er af mörgum talinn einn athyglisverðasti golfvöllurinn á Spáni og þó víðar væri leitað. Landslagið í honum býður upp á mjög skemmtilegt og krefjandi golf, þar sem hægt er að tefla djarft eða fara öruggari leiðir. Völlurinn hentar því vel bæði þeim sem eru aðeins byrjaðir að slá kúluna og einnig þeim sem eru komnir lengra í golflistinni. Golfkennsla og golfverslun er á staðnum og nýlega var þar opnað nýtt og glæsilegt klúbbhús með tveimur veitingastöðum, girnilegum tapas-bar, fallegum veislusölum. Góð æfingaaðstaða er við klúbbhúsið og skemmtilegur púttvöllur þar sem ungir sem aldnir geta æft sig, eða farið í púttkeppni.

Í næsta nágrenni eru fjölmargir frábærir golfvellir, t.d. Camboamor, Las Colinas, Villamartin, La Finca, La Manga, La Marquesa og ótal fleiri.

Mikill fjöldi verslana og frábærra veitingastaða eru í næsta nágrenni. Um 10 mín. akstur er á frábæra strönd, og glæsilega verslana/afþreyingamiðstöð, La Zenia Boulevard. Um 15 mín akstur til Torrevieja, sem iðar af skemmtilegu mannlífi allan sólarhringinn.

Á Las Ramblas er hægt að sameina sólarfrí með golfi, strönd, góðum mat og verslun. Þannig ættu allir í fjölskyldunni að finna eitthvað við sitt hæfi.

Los Alcazares

Einn skemmtilegasti staðurinn á Costa Calida er án efa Los Alcazares, skemmtilegur spænskur bær sem stendur við Mar Menor sjávarlónið, stærsta sjávarlón í Evrópu. Þægilegt hitastig vatnsins og efnasamsetning gerir þetta að stærstu náttúrulega heilsu spa í Evrópu og hefur leirinn sem þar myndast góð áhrif á ýmsa sjúkdóma eins og t.d. húðsjúkdóma og bólgur.

Costa Calida hefur verið vinsæll áfangastaður innflytjenda um aldaraðir vegna hins góða loftslags og lífsglöðu íbúa. Spænska millistéttin hefur um áraraðir flykkst til Los Alcazares í sumarleyfum sínum og við uppbyggingu bæjarins hefur verið tekið mið af þörfum kröfuharðra ferðamanna. Þar eru skemmtilegar göngugötur og torg, fallegir skemmtigarðar, fjölbreytt úrval verslana og veitingastaða þar sem hægt er að setjast niður á litla tapas-bari eða fágaða sælkerastaði, skella sér á diskótek eða taka þátt í skemmtilegum spænskum hátíðum “fiestum”.

Ströndin er einstök, breið og hvít sandströnd þar sem nóg pláss er fyrir alla. Þarna er hægt að stunda alls kyns vatnaíþróttir eins og sund, siglingar, köfun og seglbrettareið. Mjög góð sundlaug er einnig á staðnum. Meðfram ströndinni liggur um 5 km „promenade“ þar sem hægt er að ganga, skokka, hjóla, vera á línuskautum eða bara sitja á góðum bekk og virða fyrir sér mannlífið. Lífríkið er einstakt og jafnvel má sjá þar flamingóa og ýmsa farfugla sem þar koma við á leið sinni milli Evrópu og Afríku. Mjög skemmtileg smábátahöfn er við ströndina og þar er einnig að finna yfir hundrað ára baðhús, sem varðveita skemmtilega sögu staðarins sem baðstrandabæ.